Starfsreglur sjúkrasjóðs FTAT
1. Umboð stjórnar Sjúkrasjóðs FTAT:
Stjórn sjúkrasjóðs FTAT felur skrifstofu FTAT daglega umsjón og afgreiðslu fyrir sjúkrasjóð FTAT skv. 9. grein reglugerðar sjúkrasjóðsins.
Framkvæmdastjórn sjúkrasjóðs FTAT er heimilt að móta starfsreglur skv. 7. og 8. gr. reglugerðar sjúkrasjóðsins, eftir því sem reynsla af starfsemi sjóðsins gefur tilefni til.
2. Markmið sjóðsins:
- Að greiða dagpeninga vegna launataps sjóðsfélaga í veikinda- og slysatilfellum, vegna skyndi áfalls sjóðsfélaga eða langvarandi veikinda maka eða barna undir 18 ára aldri.
- Að greiða hluta kostnaðar við sjúkraþjálfun, endurhæfingu, ferðakostnað og húsnæðisstyrk vegna sjúkrahúsdvalar innanlands fjarri heimabyggð.
- Að greiða útfararstyrk vegna andláts sjóðsfélaga.
- Að stuðla að bættu heilsufari félagsmanna.
3. Tekjur sjóðsins:
- Samningsbundnar greiðslur atvinnurekanda til sjóðsins, þ.e. 1% af launum sjóðsfélaga.
- Vaxtatekjur.
4. Réttur sjóðsfélaga til endurgreiðslu:
Atvinnurekandi greiðir 1% af launum sjóðsfélaga til sjóðsins. 40% af greiðslunni fer í endurgreiðslur til sjóðsfélaga en 60% fara í samtryggingarsjóð.
5. Greiðslur sjúkradagpeninga:
Eftir 6 mánaða greiðslu í sjóðinn hafa félagsmenn náð fullum réttindum til greiðslna úr sjóðnum. Fram að því fara réttindin stigvaxandi þar til fullum rétti er náð. Sjúkradagpeningar eru tekjutengdir og nema að hámarki 80% af mánaðarlaunataxta sem sjóðsfélagi hafði áður en greiðslur úr sjóðnum hófust.
Réttur til sjúkradagpeninga miðast við 12 síðastliðna mánuði og er réttur til bóta 180 dagar innan hvers 12 mánaða tímabils. Hámark sjúkradagpeningagreiðslna eru 540 dagar. Sá sem hefur fullnýtt þann rétt öðlast hann að nýju þegar greitt hefur verið fyrir hann til sjóðsins í 12 mánuði, þ.e.a.s. ef 540 daga hámarkinu hefur ekki verið náð.
Heimilt er að greiða sjóðsfélögum sem vinna hlutastarf samkvæmt læknisráði sjúkradagpeninga í samræmi við hlutfall af skerðingu vinnutíma. Missi félagsmaður laun vegna langvarandi veikinda maka eða barna er heimilt að greiða viðkomandi sjúkradagpeninga í allt að 90 daga á ári, enda liggi fyrir læknisvottorð um þau veikindi.
6. Hvenær greiðast sjúkradagpeningar?
Sjúkradagpeningar greiðast mánaðarlega. Fyrsta greiðsla fer fram næstu mánaðarmót eftir að bótaþegi öðlast rétt til sjúkradagpeninga.
7. Hvenær fyrnist réttur til greiðslu sjúkradagpeninga?
Réttur til greiðslu sjúkradagpeninga fyrnist, sé greiðslu ekki vitjað innan 4 mánaða frá því að veikindi eða slys bar að höndum.
8. Hvernig á að sækja um?
Með umsókn um sjúkradagpeninga skal fylgja:
- læknisvottorð, er tilgreinir þann dag sem slys eða veikindi bar að höndum
- launaseðlar síðustu 6 mánaða
- staðfesting vinnuveitenda um fullnýtingu veikindaréttar.
- ef lokadagsetning er ekki á læknisvottorði, ber að skila inn nýju vottorði innan tveggja mánaða.
- gögnum skal skila inn í síðasta lagi viku fyrir mánaðarmót til að greiðsla geti borist síðasta virka dag mánaðar.
9. Greiðslur vegna heilsuræktar:
FTAT endurgreiðir af inneign sjóðsfélaga vegna sjúkraþjálfunar, líkamsræktar, hnykkmeðferðar og annarrar meðferðar sem eru fyrirbyggjandi vegna heilsufarsástands stoðkerfis. Greiddur er allt að helmingur af hlut sjúklings vegna meðferðar. Sama á við um endurgreiðslur vegna sálfræðiþjónustu.
Hægt er að sækja um endurgreiðslu vegna gleraugnakaupa og fer það eftir innstæðu hvers félagsmanns hvað sú endurgreiðsla getur verið há, en þó að hámarki helmingur af útlögðum kostnaði félagsmanns. Endurgreiðslur miðast við að reikningar séu ekki eldri en 24 mánaða gamlir. Reikningar sem berast fyrir þriðjudag í viku hverri eru greiddir út á fimmtudag í sömu viku.
10. Styrkir:
- Hægt er að sækja um styrk vegna augnaðgerðar (Laiser), allt að kr. 80.000.- fyrir bæði augun.
- Endurgreitt er vegna glasafrjóvgunar í eitt skipti kr. 100.000.- sem er föst upphæð .
- Útfarastyrkur vegna andláts sjóðsfélaga kr. 280.000,-
- Endurgreiðslur vegna reglubundinna krabbameinsskoðana kr. 6.098,- eru endurgreiddar sem styrkur óháð inneign félagsmanns.
11. Forvarnar- og endurhæfingarstarf:
Sjúkrasjóði FTAT er heimilt að styrkja félagsmenn til þátttöku í forvarnar- og endurhæfingarstarfi.