Í ársbyrjun 1978 komu saman til fundar tólf konur sem áttu það sameiginlegt að starfa fyrir tannlækna. Okkur fannst störf okkar mikilvæg, en um leið vanmetin.
Í framhaldi af þessu var stofnað Félag aðstoðarfólks tannlækna þann 9. mars, 1978, og var markmiðið með stofnun félagsins að vinna að bættum kjörum félagsmanna, og eins að þeir fengju einhverja þjálfun til þess að geta sinnt þessum störfum.
Í upphafi samningaviðræðna við TFÍ höfðum við óskað eftir að nefnd yrði skipuð til þess að skoða möguleika á námskeiðahaldi fyrir aðstoðarfólk tannlækna. Ósk okkar var sú, að koma af stað menntun sambærilegri því sem þekkist í nágrannalöndum okkar.
Nefnd, sem ætlað var að vinna að þessum málum, var skipuð í kjölfar fyrsta kjarasamnings FAT og TFÍ, en nefndina skipuðu þrír tannlæknar og tveir aðstoðarmenn.
Í byrjun nóvember sama ár var tannlæknum og aðstoðarmönnum sent bréf og var þar skýrt frá væntanlegu námskeiðahaldi ásamt kostnaðaráætlun.
FAT-konur skyldu sjá um að smyrja brauð og selja í matarhléum og þannig tækist okkur að lækka verulega kostnað við námskeiðahaldið. Tannlæknar voru hvattir til þess að kosta fólk sitt á námskeiðin, en tólf námskeið voru fyrirhuguð, 6 fyrir áramót og 6 eftir áramót. Sal Tannlæknafélagsins fengum við endurgjaldslaust, en fyrirlesara, konu í eldhús og þrif þurfti að greiða. Fullbókað var á öll þessi námskeið, sem þóttu takast með ágætum.
Viðurkenningarskjöl voru veitt þeim, sem þátt tóku, en tillaga okkar um að próf yrðu þreytt að loknu námskeiðahaldi fékk ekki hljómgrunn.
Segja má að þetta starf hafi orðið kveikjan að þeim námskeiðum, sem síðan voru haldin í sambandi við ársþing TFÍ.
Strax á árinu 1979 var það markmið okkar að koma menntunarmálum okkar í viðunandi horf efst á dagskrá yfir þau verk sem fram undan voru. Formaður FAT hafði samband við Landlæknisembættið og óskaði eftir umræðum um þessi mál. Þáverandi landlæknir, Ólafur Ólafsson, tók málaleitan þessari vel og tjáði okkur að hann myndi leggja málið í nefnd.
Fyrstu skrefin að menntun aðstoðarfólksins voru stigin.
Á næstu árum var unnið markvisst að menntunarmálunum og varð sú ganga margfalt lengri og þyngri en nokkurn hafði grunað þegar upp var lagt, en í mars, 1986, barst okkur bréf frá heilbrigðisráðherra, þar sem hann gerir að tillögu sinni að fulltrúar verði skipaðir, annars vegar frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og hins vegar frá menntamálaráðuneytinu til þess að koma menntun aðstoðarfólks tannlækna í viðunandi horf.
Eftir marga fundi með þessum aðilum var samþykkt tillaga um að haldin yrðu námskeið fyrir aðstoðarfólk sem starfað hafði í þrjú ár eða lengur, og þeim síðan gefinn kostur á að gangast undir próf og öðlast full réttindi stæðust þeir prófið.
Hins vegar var lagt til að opnuð yrði námsbraut við Fjölbrautaskólann við Ármúla í samvinnu við Tannlæknadeild Háskóla Íslands. Yrði námi þannig hagað að fyrst yrði nám á heilsugæslubraut og síðan sérnám við Tannlæknadeild Háskólans.
Að því loknu myndi viðkomandi nemandi útskrifast sem aðstoðarmaður tannlæknis.
Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur aðstoðarmanna tannlækna var gefin út 11. júní, 1990.
Félagið barðist lengi fyrir því að fá starfsheitið „tanntæknir“ og 27. apríl, 1998, daginn sem haldið var upp á 20 ára afmæli félagsins, barst bréf frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu um nafnbreytingu á starfsheiti löggiltra aðstoðarmanna tannlækna úr aðstoðarmaður tannlæknis í tanntæknir, og að gefin hefði verið út ný reglugerð um menntun, réttindi og skyldur tanntækna.
Samantekt eftir fyrsta formann félagsins, Erlu Ingólfsdóttur.