Lög FTAT

Lög félags tanntækna og aðstoðarfólks tannlækna

1. gr
Heiti félagsins
Félagið heitir Félag tanntækna og aðstoðarfólks tannlækna, skammstafað F.T.A.T. Starfssvæði félagsins er allt Ísland. Varnarþing félagsins og aðsetur er á stór-Reykjavíkursvæðinu .

2. gr.
Markmið og tilgangur félagsins
Að efla og styrkja samhug og samheldni félagsmanna.

  • fara með samninga fyrir hönd félagsmanna um kaup og kjör.
  • að koma fram fyrir hönd félagsmanna gagnvart stjórnvöldum vegna hagsmuna félagsins.
  • vernda réttindi og hagsmuni félagsmanna.
  • vinna að auknu öryggi félagsmanna við vinnu.
  • veita félagsmönnum aðstoð í veikindum og atvinnuleysi.
  • vinna að aukinni menntun félagsmanna og afla viðurkenningar á sérhæfni
    þeirra.

3.gr
Aðild
Félagið er opið öllum er starfa á tannlæknastofu og löggiltum tanntæknum.
Félagar geta þeir orðið sem uppfylla eftirtalin skilyrði:

  • starfa á tannlæknastofu og/eða vera löggildur tanntæknir.
  • standa ekki í óbættum sökum við önnur félög launþega.
  • sem greiða tilskilin félagsgjöld.

4.gr.
Aukaaðild
Eingöngu löggildur tanntæknir sem skylt er að greiða félagsgjöld í annað félag s.s. þeir sem vinna hjá ríki og borg geta verið með aukaaðild.
Þeir hafa ekki rétt á að nýta sér sjúkrasjóð né aðra sjóði félagsins.
Þeir geta tekið þátt í fundum félagsins með málfrelsi og atkvæðisrétt
Þeir hafa ekki leyfi til að sitja í stjórn félagsins.

Gjald fyrir aukaaðild skal aldrei vera meiri en sem nemur 0.25% af lámarkslaunum tanntækna á ári hverju. 

5.gr.
Innganga í félagið
Félagsmenn geta þeir orðið sem óska inngöngu með að greiða félagsgjald til félagsins og uppfylla að öðru leiti lög félagsins.  Geri greiðandi félagsgjalda ekki athugasemd innan 30 daga frá því að staðfesting um greiðslu barst telst hann félagsmaður. 

6.gr.
Úrsögn
Félagsmaður dettur sjálfkrafa út ef ekki er greitt fyrir hann.

7.gr.
Réttindi félagsmanna
Réttindi félagsmanna eru:

  • Málfrelsi, tillöguréttur og atkvæðisréttur á félagsfundum.
  • Kjörgengi til trúnaðarstarfa í félaginu.
  • Styrkir úr sjóðum félagsins skv. nánari reglum. 
  • Réttur til að vinna þau störf sem kjarasamningur F.T.A.T .og T.F.Í.taka til.
  • Aðstoð félagsins vegna vanefnda vinnuveitanda á samningi F.T.A.T og T.F.Í.
  • Aðstoð félagsins við túlkun á kjarasamningi
  • Réttur til afnota af sameiginlegum eignum félagsins samkvæmt nánari reglugerðum.
  • Atkvæðisréttur félagsmanna um samþykki eða synjun kjarsamninga félagsins.

8.gr.
Skyldur félagsmanna

Skyldur félagsmanna eru að:

  • Hlýða lögum félagsins, fundarsköpum, fundarsamþykktum og samningum sem félagið hefur gert.
  • Gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið endurgjaldslaust nema annað sé ákveðið í lögum þessum.
  • Gefa stjórn félagsins upplýsingar um meint brot eða tilraunir til brota á kjarasamningi FTAT og TFÍ
  • Aðhafast ekkert sem er FTAT til tjóns eða álitshnekkis
  • Geiða félagsgjald.

9.gr
Brottrekstur úr félaginu
Hver sá maður er rækur úr félaginu í lengri eða skemmri tíma sem að áliti félagsfundar hefur unnið gegn hagsmunum félagsins, bakað því tjón eða gert því eitthvað til vansa svo og hver sem ekki hlýðir lögum félagsins. Brottvikningu skal ekki beitt nema félagsmaður hafi verið áminntur áður og að honum hafi verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum skriflega á framfæri við stjórn félagsins.

Tillaga um brottvikningu félagsmanns úr félaginu skal samþykkt á félags- eða aðalfundi.
Hafi félagsmanni verið vikið úr félaginu á hann ekki afturkvæmt nema inntökubeiðni hans sé samþykkt á lögmætum félagsfundi.

10.gr.
Félagsgjald
Félagsgjald er ákveðið á aðalfundi hverju sinni. 

11.gr.
Stjórn
Stjórn félagsins skipa 5 aðalmenn og 2 menn til vara.

Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi til tveggja ára í senn. Stjórnarmenn skulu kosnir á víxl til tveggja ára í senn í einstaklingsbundinni kosningu. Annað hvert ár skal formaður kosinn ásamt tveimur stjórnarmönnum. Hitt árið eru kosnir tveir stjórnarmenn. Tveir varamenn skulu kjörnir. Einn á hverju ári til tveggja ára í senn. Formaður skal ekki gegna embætti lengur en 3 kjörtímabil, eða 6 ár í röð. 

12. gr.
Kjör stjórnar
Framboð til formanns og/eða stjórnar skal berast skrifstofu félagsins skriflega eigi síðar en 7 dögum fyrir boðaðan aðalfund.

Til að formaður sé rétt kjörinn skal hann hafa hlotið hreinan meirihluta atkvæða. Ef fleiri en tveir félagsmenn bjóða sig fram til formanns og enginn hlýtur hreinan meirihluta skal kjósa á ný milli tveggja efstu frambjóðenda. Allar kosningar skulu vera skriflegar að því gefnu að fleiri en einn félagsmaður sé í framboði

13.gr.
Hæfi stjórnarmanna
Stjórnarmenn skulu vera fjár síns ráðandi og uppfylla almenn hæfisskilyrði og mega ekki á sl. 5 árum hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað. Við meðferð einstakra mála skal stjórnarmaður víkja ef hann á hagsmuna að gæta er kunna að fara í bága við hagsmuni félagsins.

14.gr.
Skoðunarmenn
Skoðunarmenn félagsins skulu vera 3 og kosnir á aðalfundi félagsins. 

15. gr.
Störf stjórnar
Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins á milli funda.

Allar meiriháttar ákvarðanir stjórnar skal bera undir félagsfund t.d sölu á eignum félagsins.

Stjórnin hefur eftirlit með starfsemi félagsins og fylgir eftir að lögum og samþykktum sé fylgt. Stjórnin skal vinna að stefnumótun félagsins. Stjórn félagsins ræður starfsmenn og semur um kjör þeirra.

Formaður kemur fram fyrir hönd félagsins og undirritar gerðabækur félagsins og sér til þess að stjórnarmenn sinni sínum skyldum.

Ritari ber ábyrgð á að gerðabækur félagsins séu haldnar og færðar í þær allar fundargerðir og lagabreytingar. Ritari félagsins undirritar gerðabækur félagsins ásamt formanni. Ritari einn hefur heimild til að hljóðrita fundi félagsins.

Gjaldkeri eða formaður sér um eftirlit með fjármálum félagsins. Bókari utan félags fengin til að sjá um bókun reikninga og skjala.

Þóknun til stjórnarmanna fyrir stjórnarstörf skal ákveðin á aðalfundi fyrir komandi starfsár. 

16.gr.
Stjórnarfundir
Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnafundi eftir aðalfund. Velur sér varaformann, (gjaldkera) og ritara og skal hún gera grein fyrir því á næsta félagsfundi.
Formaður félagsins boðar stjórnarfundi og stjórnar þeim. Honum er skylt að halda stjórnarfundi ef a.m.k. 2 stjórnarmenn óska þess.
Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. 

17. gr.
Trúnaðarráð
Trúnaðarráð skal vera starfandi í félaginu. Trúnaðarráð skal skipað stjórn og varastjórn félagsins auk 5 fulltrúa kosnum á aðalfundi til eins árs í senn.

Stjórnin kallar Trúnaðarráð saman til fundar er ástæða er til. Á slíkum fundi ræður einfaldur meirihluti úrslitum.

Trúnaðarráð skal vera stjórn félagsins ráðgefandi í að
– móta stefnu félagsins í mikilsverðum málum.
-gera tillögu um atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun.
-leggja mat á samninga áður en þeir eru bornir undir atkvæði.

18. gr.
Samninganefnd
Samninganefnd skal vera starfandi í félaginu. Samninganefndin kemur fram fyrir hönd félagsins við gerð kjarasamninga. Samningnefndin skal skipuð þremur stjórnarmönnum. Heimilt er stjórninni að kalla til fleiri félagsmenn í samninganefndina.

19.gr.
Nefndir
Innan félagsins skulu vera starfandi eftirtaldar nefndir og skipaðar 3 fulltrúum. Sem kosnir eða skipaðir skulu á aðalfundi.
Fræðslu / Endurmenntunarnefnd

20. gr.
Aðalfundur – Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins.
Aðalfundur félagsins skal haldinn að vori, í síðasta lagi 15. maí. Ákvörðun um tímasetningu aðalfundar skal tilgreind á heimasíðu félagsins a.m.k tveimur vikum fyrir fund. Boða skal til aðalfundar með minnst 10 daga fyrirvara. Fundurinn skal boðaður á heimasíðu félagsins og tölvupósti.

Fundarstjóri aðalfundar getur verið ófélagsbundinn aðili.

Dagskrá aðalfundar:

  1. Kosning fundarstjóra
  2. Skýrsla stjórnar
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar
  5. Kosning formanns
  6. Kosning stjórnarmanna
  7. Kosning skoðunarmanna
  8. Kosning trúnaðarráðs
  9. Kosning/tilnefningar í nefndir
  10. Ákvörðun um félagsgjöld
  11. Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna
  12. Önnur mál 


21. gr
Aukaaðalfundur
Aukaaðalfundur skal haldinn ef stjórn félagsins telur ástæðu til og/eða ef 25% félagsmanna óska þess. Hann skal boðaður með sama hætti og aðalfundur.

22.gr.
Félagsfundur
Almennir félagsfundir skulu haldnir þegar stjórn telur þörf á því og/eða ef 25% félagsmanna óska þess við stjórn félagsins.  Félagsfundur skal boðaður með sama hætti og aðalfundur með viku fyrirvara og skal til hans boðaða innan 3ja daga frá þvi að lögmæt beiðni um félagsfund lá fyrir.

Félagsfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda. Á almennum félagsfundi gilda almennar reglur um fundarsköp. Á félagsfundi ræður afl atkvæða og er ályktunarbær um öll atriði sem ekki stangast á við lög félagsins.

Ef vantraust á stjórn er samþykkt á félagsfundi skal boða til auka aðalfundar til að kjósa stjórn að nýju.

23.gr.
Fjármál
Reikningsár félagsins er almanaksárið.
Endurskoðandi skal ráðinn fyrir félagið af stjórn félagsins.

Sjóði félagsins skal geyma á vöxtum í banka, sparisjóðum eða á öðrum jafn tryggum stað. Af tekjum félagsins skal greiða öll útgjöld félagsins og annan kostnað, er stafar af samþykktum félagsfunda eða stjórnar. Við meiriháttar ráðstafanir á eigum félagsins þarf samþykki félagsfundar.

Reikningar félagsins skulu undirritaðir af skoðunarmönnum félagsins og endurskoðanda 10 dögum fyrir aðalfund. Reikningar skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins viku fyrir aðalfund. Einnig verða þeir aðgengilegir félagsmönnum á heimasíðu félagsins.

Hver og einn félagsmaður á rétt á því að fá sitt eigið eintak af reikningum á aðalfundi og er það þar með hans eign.

24.gr.
Lagabreytingar
Lögum félagsins er hægt að breyta á aðalfundi og þarf samþykki 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna til. Tillögur að lagabreytingum skulu sendar stjórn eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan aðalfund. Tillögu að lagabreytingu skal getið í fundarboði.
Allar breytingatillögur skulu ligga frammi á skrifstofu félagins og á heimassíðu félagsins eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund. 

25.gr.
Slit félagsins
Slit félagsins skal ræða á tveimur fundum og telst samþykkt ef ¾ allra félagsmanna samþykkja það á seinni fundi.